„Það hefur verið flott fyrir mig að fá að spila svona mikið,“ sagði landsliðsmaðurinn Mikael Egill Ellertsson í samtali við mbl.is á hóteli íslenska landsliðsins í fótbolta í Alicante á Spáni.
Mikael er í stóru hlutverki hjá Venezia sem spilar í ítölsku A-deildinni, einni sterkustu deild í heimi. „Það er frábært og geggjuð reynsla. Það er draumur að vera að spila á svona stóru sviði,“ sagði hann en liðinu sjálfu hefur ekki gengið sérlega vel.
„Liðinu hefur ekki gengið nægilega vel og við erum neðstir. Það er stutt á milli í þessu og ef við vinnum 2-3 leiki þá lítur þetta allt öðruvísi út,“ sagði hann, en Mikael hefur spilað nokkrar stöður á tímabilinu.
„Ég er að spila margar stöður. Ég er á miðjunni og svo hef ég verið að spila sem kantbakvörður vinstra og hægra megin. Mér líður vel hjá þessu liði.“
Mikael átti sinn þátt í að Venezia fór upp um deild á síðustu leiktíð eftir sigur í umspili B-deildarinnar. „Það var æðislegt og það skemmtilegasta sem ég hef gert á ferlinum hingað til.“