Hann er hafsjór af fróðleik

Davíð Snorri Jónasson kann vel við sig hjá A-landsliðinu.
Davíð Snorri Jónasson kann vel við sig hjá A-landsliðinu. mbl.is/Jóhann Ingi

Davíð Snorri Jónasson var ráðinn aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í fótbolta í maí eftir að hafa stýrt U21 árs landsliðinu þar á undan. Davíð Snorri kann vel við að starfa með A-landsliðinu.

„Mér hefur liðið vel og mér hefur verið vel tekið. Það hjálpaði mér að hafa verið í landsliðsumhverfinu lengi. Við erum samstíga í hvernig landsliðin vinna og ég var í góðu sambandi við bæði Arnar og svo Åge líka.

Það er ekki eins og ég hafi verið að hitta Åge í fyrsta skipti. Við höfum rætt mikið saman og þetta hefur verið góður tími. Ég hef mjög gaman að þessu,“ sagði Davíð í samtali við mbl.is.

Åge Hareide landsliðsþjálfari Íslands er orðinn 71 árs og gríðarlega reynslumikill. Davíð nýtur þess að vinna með Norðmanninum.

„Þú getur rætt við hann um hvað sem er. Taktík er eitt en svo er hann mjög reynslumikill og hefur náð árangri á mörgum stöðum. Hann er sveigjanlegur og það er hægt að spyrja hann alls konar.

Hann er hafsjór af fróðleik og ég hef lært gríðarlega mikið. Hann er góður stjórnandi og treystir okkur starfsfólki vel. Við gerum allt sem við getum til að ná því fram sem hann vill. Það hefur gengið vel. Við erum með frábært teymi,“ sagði Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert