Hjálpaði að mæta í jarðarförina

Sverrir Ingi Ingason á liðshóteli Íslands á Spáni.
Sverrir Ingi Ingason á liðshóteli Íslands á Spáni. mbl.is/Jóhann Ingi

Landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason og liðsfélagar hans hjá gríska knattspyrnuliðinu Panathinaikos urðu fyrir miklu áfalli 9. október síðastliðinn er George Baldock leikmaður liðsins drukknaði á heimili sínu. Hann var aðeins 31 árs þegar hann lést. Sverrir og Baldock voru nánir og um áfall fyrir íslenska landsliðsmanninn að ræða.

„Það var gríðarlega erfitt. Þetta gerðist í síðasta landsliðsverkefni. Við George náðum virkilega vel saman og við eyddum tíma saman utan vallar. Hann var einn af þeim leikmönnum sem stóðu næst mér.

Þetta var rosalegt sjokk og maður trúði þessu varla til að byrja með. Ég átti erfitt með að skilja hvað hafði gerst. Stundum gerast hlutir í þessu lífi þar sem er lítið um svör. Það var hræðilegt atvik sem varð til þess að við misstum hann,“ sagði Sverrir við mbl.is.

Það hjálpaði Sverri og öllum innan Panathinaikos að fá að vera viðstaddir jarðarför Baldocks.

George Baldock í leik með Panathinaikos gegn Olympiacos. Sverrir Ingi …
George Baldock í leik með Panathinaikos gegn Olympiacos. Sverrir Ingi spilaði leikinn. AFP/Eurokinissi

„Fyrstu tvær, þrjár vikurnar eftir voru mjög erfiðar. Við í liðinu ferðuðumst saman í jarðarförina hans, sem var gott. Það var gott fyrir liðið að fá að vera nálægt fjölskyldu hans og vinum og ná að kveðja hann almennilega. Þetta er erfitt mál og skrítið í alla staði. Það er ömurlegt að hann skuli ekki vera með okkur í dag,“ sagði hann.

Panathinaikos ætlar að halda áfram að greiða fjölskyldu leikmannsins laun út samningstíma hans.

„Félagið er búið að standa sig gríðarlega vel og hefur gert allt hvað það getur til að standa við bakið á fjölskyldunni. Lífið er þannig að það koma upp erfið málefni sem þarf að takast á við. Við höfum tekist á við þetta sem persónur og lið undanfarnar vikur. Þetta hefur verið skrítið,“ sagði Sverrir.

George Baldock lék ungur að árum með ÍBV.
George Baldock lék ungur að árum með ÍBV. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hann viðurkenndi að það hefði verið erfitt að spila fyrstu leikina eftir áfallið en það kom upp þegar Sverrir var á Íslandi í landsliðsverkefni.

„Þetta gerðist tveimur dögum fyrir Wales-leikinn og ég hef aldrei áður lent í því að missa einhvern náinn mér, ég var með honum daglega og þekki konuna hans og börn. Hugurinn leitaði alltaf þangað á meðan maður var að reyna að halda fókus á vellinum.

Oft taka stærri hlutir við í höfðinu á þér. Maður lærir að lifa með þessu og lærir að lifa áfram. Maður sá að það var mikil sorg innan liðsins. Fólk átti erfitt með þetta, sem er skiljanlegt. Síðustu vikur höfum við verið að læra að lifa með þessu. Að fá að kveðja hann var gott,“ sagði Sverrir um George Baldock heitinn.

Nánar er rætt við Sverri í Morgunblaðinu sem kemur út á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert