Andri Lucas Guðjohnsen kann afar vel við sig á Spáni þar sem íslenska karlalandsliðið í fótbolta æfir fyrir leikinn við Svartfjallaland í Þjóðadeildinni á laugardag.
Andri bjó lengi á Spáni en faðir hans Eiður Smári Guðjohnsen lék með Barcelona þegar Andri var ungur drengur. Hann var á mála hjá stórliðum Barcelona, Real Madrid og Real Socieadad á sínum yngri árum.
„Ég var í Barcelona í tólf ár og svo fjögur ár í Madríd. Ég er ekki langt frá því að vera Spánverji. Ég kann vel við mig hérna, ég þekki menninguna, tala tungumálið. Það er gott að vera kominn aftur og tala við spænska fólkið aftur,“ sagði Andri í samtali við mbl.is á hóteli landsliðsins í Alicante.
Andri er á sínu fyrsta tímabili hjá Gent í Belgíu, þar sem hann er mjög sáttur við lífið og tilveruna.
„Það er mjög gott að vera í Belgíu. Gent er frábær staður og virkilega gott félag. Það er aðeins byrjað að kólna núna en veðrið hefur verið mjög þægilegt líka. Svo gengur ágætlega í boltanum.
Við erum í fimmta sæti í deildinni og höfum unnið alla leiki í Evrópu nema á móti Chelsea úti. Svo erum við komnir áfram í bikarnum líka,“ sagði hann.
Andri hefur skorað tvö mörk í tíu deildarleikjum með Gent og viðurkenndi að hann væri til í að skora meira.
„Það gengur ágætlega á vellinum. Maður væri alveg til í að skora meira eða leggja meira upp. Mér finnst ég samt spila vel. Mér líður betur og betur inni á vellinum líka. Maður er nokkuð sáttur með þetta,“ sagði hann.