Mikael Egill Ellertsson, atvinnu- og landsliðsmaður í fótbolta, fylgist vel með yngri bróður sínum Markúsi Páli Ellertssyni.
Markús er 18 ára gamall leikmaður Fram, sem spilaði sína fyrstu leiki og skoraði sitt fyrsta mark í Bestu deildinni á leiktíðinni.
„Ég fylgist vel með honum og er stoltur. Hann var svo valinn í U19 landsliðið og það er frábært fyrir hann,“ sagði Mikael við mbl.is en Markús er núna með U19 ára liðinu í Aserbaídsjan þar sem það leikur í undankeppni EM þessa dagana.
Mikael er leikmaður Venezia á Ítalíu, sem leikur í A-deildinni þar í landi. Mikael og Bjarki Steinn Bjarkason áttu sinn þátt í að liðið fór upp úr B-deildinni á síðustu leiktíð.
„Ég er fyrst núna með íslenskan liðsfélaga. Við Bjarki erum góðir félagar og það breytir öllu að hafa Íslending í hópnum,“ sagði Mikael.
Hann var aðeins 16 ára gamall þegar hann skipti yfir til SPAL á Ítalíu og hefur verið þar í landi allar götur síðan.
„Ég er helvíti góður í ítölskunni enda búinn að vera þarna í sex ár. Þetta var smá basl fyrst en svo kom þetta fljótt þegar ég byrjaði að tala. Ég bý aðeins fyrir utan Feneyjar. Þetta er frábær borg og menningin þarna er æðisleg,“ sagði Mikael.