Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Kanada í vináttulandsleik á Spáni föstudaginn 29. nóvember.
Leikið verður á Pinatar Arena í Murcia en áður hafði verið samið við Dani um vináttulandsleik þar þremur dögum síðar, mánudaginn 2. desember.
Þetta verður þriðji landsleikur Íslands og Kanada en þjóðirnar mættust í Algarve-bikarnum í Portúgal 2016 og 2019. Kanada vann fyrri leikinn 1:0 en sá síðari endaði 0:0.
Kanada hefur verið eitt af sterkustu landsliðum heims um árabil og varð Ólympíumeistari í Tókýó árið 2021. Liðið er í sjötta sæti heimslistans í dag en Ísland er í 13. sæti.
Með liði Kanada leikur Cloé Eyja Lacasse, sem lék með ÍBV í fimm ár og fékk íslenskan ríkisborgararétt en var ekki heimilað að leika með íslenska landsliðinu vegna of skammrar búsetu.