Ibrahima Baldé, senegalski knattspyrnumaðurinn sem hefur leikið með Vestra undanfarin tvö ár, hefur ákveðið að yfirgefa félagið eftir að samningar náðust ekki á milli hans og Vestra.
Baldé, sem er 28 ára gamall miðjumaður, var lykilmaður í liði Vestra árið 2023 þegar liðið vann sér sæti í efstu deild. Einnig var hann í stóru hlutverki síðastliðið sumar í Bestu deildinni. Hann hefur spilað 45 leiki í deildakeppninni og skorað 2 mörk fyrir Vestra.
Ibrahima sagði við mbl.is að sig hefði langað til að leika áfram með liðinu en það hefði ekki gengið upp.
Hver er ástæðan fyrir því að þú ert að fara frá Vestra eftir tvö góð ár fyrir vestan?
„Þetta eru búin að vera tvö frábær ár. Við náðum að koma liðinu í deild þeirra bestu. Það hefur ekki verið auðvelt að ná því að spila þar, það hafa verið erfiðir tímar en við náðum því á endanum. Þetta er búið að vera gott fyrir alla í félaginu.
Ég gerði eins árs samning með möguleika um árs framlengingu sem rann núna út eftir tímabilið. Við ræddum nýjan samning eftir tímabilið en náðum ekki samkomulagi. Þannig að ég mat það að það væri best fyrir félagið og mig að ég færi annað.“
Langaði þig að vera áfram hjá Vestra?
„Já, auðvitað langaði mig að vera áfram. Hinsvegar langar mig að vera hjá félagi sem metur mig að verðleikum. Ég hlustaði á það sem félagið vildi bjóða mér en það var það langt frá því sem ég vildi. Tíminn og vinnan sem ég hef lagt í þetta verkefni síðustu tvö ár verðskulda meira. Ég kom með gagntilboð sem þeir tóku ekki þannig að þetta endaði svona.“
Einhver skilaboð sem þú vilt koma á framfæri til stuðningsmanna Vestra?
„Ég er mjög þakklátur öllum fyrir vestan, fólkið studdi okkur í gegnum súrt og sætt. Þau trúðu á okkur og voru alltaf tilbúin að hjálpa okkur leikmönnunum. Það hafa verið forréttindi að spila fyrir félag í litlum bæ sem er samt einhvern veginn jafn stór og heil borg. Ég vil þakka þeim öllum fyrir stuðninginn og vona að þau skilji að stundum þarftu að halda á ný mið þar sem þú ert metinn að verðleikum.“
Hefur þú áhuga á að spila áfram á Íslandi?
„Já ég myndi elska það að fá að spila hérna áfram. Mér líður eins og heima hjá mér hérna og hef eignast marga góða vini. Ég hef náð að aðlagast fótboltanum hér, ég veit um hvað hann snýst og hef hæfileikana til að spila vel hér á landi. Þannig að ég er opinn fyrir öllu. Ef það gengur ekki þá held ég bara á vit ævintýranna annars staðar," sagði Ibrahima Baldé við mbl.is.
Það er ljóst að Vestri þarf að sækja leikmenn fyrir næsta tímabil þar sem Baldé er áttundi staðfesti leikmaðurinn sem fer frá félaginu.
Þeir sem eru farnir frá Vestra eru ásamt Ibrahima Baldé, þeir Eiður Aron Sigurbjörnsson, Andri Rúnar Bjarnason, William Eskelinen, Jeppe Gertsen, Inaki Rodríguez, Benjamin Schubert og Aurelin Norest.
Síðan eru heimamennirnir Daníel Agnar Ásgeirsson og Ívar Breki Helgason fluttir suður og er ólíklegt að þeir komi aftur vestur. Einnig eru margir samningslausir, m.a. Serigne Fall, Gunnar Jónas Hauksson, Elmar Atli Garðarsson, Silas Songani og Elvar Baldvinsson. Hinsvegar verður að teljast líklegt að þessir leikmenn semji aftur við Vestra. Það verður í það minnsta líf og fjör á skrifstofu Vestra á næstunni.