Knattspyrnumaðurinn Logi Tómasson hefur skotist upp á stjörnuhimininn undanfarna mánuði. Hann hefur leikið afar vel með Strömsgodset í Noregi á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður erlendis og þá hefur hann komið sterkur inn í A-landsliðið.
Ekki er langt síðan Logi var lánaður frá Víkingi í Reykjavík og í FH þar sem hann komst einfaldlega ekki í Víkingsliðið.
„Ég vissi alveg að ég gæti þetta en það er erfitt að segja að ég hafi séð það fyrir að ég kæmist inn í A-landsliðið og myndi standa mig þar. Auðvitað er markmiðið að gera vel og standa sig og í fótboltanum á maður ekki að horfa til baka, það koma alltaf nýir leikir og ný augnablik.
Ég get verið stoltur af mér og það er margt sem spilar inn í. Ég á góða fjölskyldu og vini sem hafa hjálpað mér líka. Maður er ekki einn í þessu heldur margir í kringum mann sem gera þetta með manni,“ sagði Logi.