Erfiðari völlur en við bjuggumst við

Jón Dagur í upphitun fyrir leikinn í kvöld.
Jón Dagur í upphitun fyrir leikinn í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Þetta var ekki fallegasti fótboltinn í kvöld,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson, kantmaður íslenska landsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir sigurinn á Svartfjallalandi, 2:0, á útivelli í Þjóðadeildinni í kvöld.

„Það var gríðarlega gott að ná inn tveimur mörkum, halda hreinu og klára þetta,“ bætti Jón Dagur við.

Bæði mörkin komu í seinni hálfleik í erfiðum leik, við erfiðar aðstæður.

„Þetta var mun erfiðari völlur en við bjuggumst við. Það sást á fótboltanum. Svo lengi sem við héldum hreinu þá var alltaf möguleiki á sigri. Það var geggjað að ná að setja tvö.

Þeir opnuðu okkur ekki mikið og við ekki þá heldur. Þetta var ekki skemmtilegasti leikurinn til að horfa á en við komum hingað til að ná í þrjú stig og það tókst,“ sagði hann.

Næsta verkefni íslenska liðsins er úrslitaleikur við Wales um annað sæti riðilsins og í leiðinni sæti í umspili A-deildarinnar.

„Við komum í þetta verkefni og vildum úrslitaleik við Wales. Það tókst og nú keyrum við á þetta,“ sagði Jón Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert