Fannst þeir aldrei líklegir

Logi, fyrir miðju, fagnar seinna marki Íslands.
Logi, fyrir miðju, fagnar seinna marki Íslands. Ljósmynd/Alex Nicodim

Logi Tómasson, vinstri bakvörður íslenska landsliðsins í fótbolta, var kátur eftir sigur á Svartfjallalandi, 2:0, á útivelli í Þjóðadeildinni í kvöld. Ísland mætir Wales á þriðjudag í úrslitaleik um annað sæti riðilsins og þátttökurétt í umspili um sæti í A-deildinni.

„Við vissum að við þyrftum að ná í úrslit og það voru smá taugar í byrjun. Við héldum hreinu í fyrri hálfleik og hefðum getað skorað. Í seinni hálfleik sigldum við þessu heim. Þetta var upp og niður og völlurinn var ekki sérstakur.

Við sýndum gæði í lokin og kláruðum þetta. Mér fannst þeir aldrei mjög líklegir. Þeir fengu kannski 2-3 hálffæri en þetta var flott hjá okkur,“ sagði Logi við mbl.is um leikinn og hélt áfram.

„Það gaf liðinu mikla orku að skora þetta fyrra mark. Þetta var erfiður leikur en það var sterkt að komast yfir og ná að sigla þessu síðan heim.“

Logi verður ekki með gegn Wales þar sem hann er kominn í leikbann vegna gula spjaldsins sem hann fékk í kvöld. Logi rann á vellinum og fór óvart í tæklingu.

„Ég rann aðeins og ætlaði ekki í neina tæklingu. Ég vildi ná Wales-leiknum en svona er þetta. Ég er mjög svekktur að missa af honum en það kemur einhver góður inn í staðinn. Vonandi vinnum við þann leik,“ sagði Logi.

„Það verður eflaust aðeins erfitt að horfa á leikinn. Maður getur ekki gert neitt sjálfur. Maður horfir á og vonar það besta. Það er það eina sem er í boði,“ sagði Logi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert