Willum Þór Willumsson, landsliðsmaður í fótbolta, hefur komið afar vel inn í lið Birmingham í ensku C-deildinni á leiktíðinni. Hann kom til félagsins frá Go Ahead Eagles í Hollandi í sumar og kann vel við sig í næststærstu borg Englands.
„Menningin í kringum fótboltann á Englandi er skemmtileg og fólk lifir fyrir fótboltann. Fólk stoppar mig á götunni og vill tala við mig um Birmingham. Þetta skiptir fólk mjög miklu máli,“ sagði Willum við mbl.is.
Birmingham er sem stendur í öðru sæti deildarinnar og hefur aðeins tapað einum leik á öllu tímabilinu.
„Við erum búnir að tapa einum leik, það var á móti Charlton úti og það er eini leikurinn þar sem við vorum mjög lélegir. Stuðningsmennirnir á vellinum tóku því vel, klöppuðu fyrir okkur og sungu eftir leik.
Við vorum búnir að vinna sjö í röð fyrir þann skell og stuðningsmennirnir tóku vel á móti okkur. Þeir sáu að við leggjum allt í þessa leiki og stuðningsmennirnir kunna að meta það,“ sagði Willum.