„Greip í eistun á mér“

Íslenska liðið fagnar fyrra markinu.
Íslenska liðið fagnar fyrra markinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Mér líður mjög vel,“ sagði Stefán Teitur Þórðarson í samtali við mbl.is eftir 2:0-sigur íslenska landsliðsins gegn Svartfjallalandi í Þjóðadeild karla í Niksic í Svartfjallalandi í kvöld.

„Kannski ekki okkar besti leikur, mjög erfiðar vallaraðstæður. Veit að fólk kannski sá boltann skoppa hingað og þangað en ég hef ekki spilað á mörgum erfiðari völlum en þessum.

Frábært hjá okkur að halda áfram allan tímann og ná í 2:0-sigur með frábæru öðru marki. Mjög vel spilað og frábær sókn,“ sagði Stefán.

Vallaraðstæðurnar voru ekki frábærar í Niksic í Svartfjallalandi og var mikið undir fyrir íslenska liðið í leiknum.

„Við höfum alveg haft meiri stjórn á leikjum. Mér fannst rosalega mikið fram og til baka á ákveðnum tímapunkti, við vorum að missa boltann of mikið. 

En mér fannst við samt reyna að spila í þessum aðstæðum og oft á tíðum komust við í gegnum þá og sköpuðum góð tækifæri. Tvö eða þrjú skot í fyrri hálfleik. Orri [Steinn Óskarsson] var með eitt tækifæri þar sem hann var óheppinn að setja boltann ekki á markið,“ sagði Stefán.

Wales gerði markalaust jafntefli gegn Tyrklandi í hinum leik riðilsins. Það þýðir að Ísland og Wales mætast á þriðjudaginn í úrslitaleik um 2. sæti riðilsins sem býður upp á umspil í A-deildinni.

„Það var auðvitað markmið fyrir þennan leik að koma hingað og gera okkar og svo vonast að Tyrkirnir myndu hjálpa okkur. Það er frábært að fá þennan úrslitaleik á frábærum velli og vonandi bara fullur völlur,“ sagði Stefán.

Stefán var tekinn af velli í stöðunni 0:0 á 68. mínútu. Hann sagðist hafa verið stressaðri á bekknum en inni á vellinum.

„Manni líður aldrei vel að vera tekinn út af. Ég er miklu stressaðri á bekknum heldur en þegar ég er inni á. Ég er í raun og veru frekar rólegur og rólegur á boltanum þegar ég er inni á vellinum. Það minnkaði aðeins stressið þegar Orri skoraði,“ sagði Stefán.

Stefán lenti í afar áhugaverðu atviki í leiknum þegar leikmaður Svartfjallalands greip um eistun á honum. 

„Hann greip utan um eistun á mér, ég fatta ekki alveg hvað hann var að gera. Dómarinn stendur við hliðina á þessu og ég myndi halda að þetta væri litur af einhverju spjaldi,“ sagði Stefán.

„Ég var með boltann og allt í einu teygir hann hendina fram og fer með hann þarna niður,“ bætti Stefán við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert