Orri verður að passa sig

Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld.
Jóhann Berg Guðmundsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jóhann Berg Guðmundsson var kátur er hann ræddi við mbl.is eftir að hann og liðsfélagar hans í íslenska landsliðinu í fótbolta sigruðu það svartfellska, 2:0, á útivelli í Þjóðadeildinni í dag.

„Þetta var erfiður völlur og það var skrítið hvernig boltinn skoppaði en það var frábært að ná að vinna þennan leik og ná að vinna þótt við ættum ekki okkar besta dag. Það er mjög jákvætt.

Við vorum ekki sáttir við fyrri hálfleik, þótt við ættum hættulegri færi. Þeir fengu líka sín tækifæri. Við töluðum um í hálfleik að vinna þennan leik til að fara í úrslitaleik í Wales og það var gott að klára þetta,“ sagði Jóhann við mbl.is eftir leik.

Aron Einar Gunnarsson fyrirliði Íslands þurfti að fara af velli vegna meiðsla snemma í fyrri hálfleik.

„Það var leiðinlegt fyrir Aron að þurfa að fara út af en Gulli kom frábærlega inn í þetta. Menn voru aðeins hikandi þegar þeir voru að læra á völlinn. Við bættum okkur í seinni hálfleik og unnum mun meira af seinni boltum.“

Orri Steinn Óskarsson skoraði fyrra mark Íslands, skömmu eftir að hann fékk gult spjald fyrir að ýta leikmanni Svartfjallalands eftir að dómarinn flautaði aukaspyrnu.

„Hann verður að passa sig að vera ekki að ýta leikmönnum. Sumir dómarar myndu dæma þetta öðruvísi. Hann er ekki í banni og það er allt í góðu að hann fékk gult spjald,“ sagði Jóhann sem er spenntur fyrir úrslitaleik um annað sæti riðilsins á þriðjudag.

„Það er skemmtilegt að fara til Bretlands og Wales og það verður allt undir. Það er gaman að fara í úrslitaleik,“ sagði Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert