Andri Lucas Guðjohnsen, landsliðsmaður í fótbolta, er ánægður með þróun íslenska liðsins. Ísland gerði jafntefli gegn Wales, 2:2, og tapaði fyrir Tyrklandi, 4:2, í síðasta verkefni en báðir leikir fóru fram á Laugardalsvelli.
Wales komst í 2:0 og tókst íslenska liðinu að jafna. Staðan gegn Tyrklandi var svo 2:2 þegar skammt var eftir.
„Það eina sem vantaði voru stigin. Spilamennskan var góð og það hefði verið gott að ná að tengja aðeins betur hálfleikana. Seinni hálfleikurinn á móti Wales var frábær og sýndi hvernig við viljum spila sem lið.
Við hefðum mátt vinna Wales og að minnsta kosti ná jafntefli á móti Tyrklandi. Það var margt jákvætt í síðasta verkefni sem við getum vonandi nýtt okkur núna,“ sagði Andri við mbl.is.
Hann er sáttur við tenginguna sem hefur myndast á milli hans og Orra Steins Óskarssonar en þeir hafa leikið saman frammi í undanförnum leikjum. „Þessir tveir leikir voru góðir til að styrkja tenginguna á milli mín og Orra og liðsins alls.“
Ísland leikur við Svartfjallaland á laugardag og Wales á þriðjudag í Þjóðadeildinni. Íslenska liðið gæti tryggt sér annað sæti og í leiðinni sæti í umspili þar sem sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar er undir. Til þess þarf Ísland að vinna Svartfjallaland og Tyrkland að vinna Wales um helgina.
„Þetta eru gríðarlega mikilvægir leikir. Við viljum að leikurinn við Wales verði úrslitaleikur um umspil um sæti í A-deild. Við ætlum okkur að byrja á þremur stigum á móti Svartfjallalandi,“ sagði Andri.