Aðstæður voru hræðilegar

Guðlaugur Victor, lengst til vinstri, fagnar í gærkvöldi.
Guðlaugur Victor, lengst til vinstri, fagnar í gærkvöldi. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Ég hugsaði að ég þyrfti að hjálpa liðinu,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í fótbolta, í samtali við mbl.is eftir að íslenska liðið vann það svartfellska á útivelli í Þjóðadeildinni í gærkvöldi.

Hann byrjaði á bekknum en kom inn á snemma leiks þegar Aron Einar Gunnarsson fyrirliði fór meiddur af velli.

„Það var hundleiðinlegt að ég hafi komið inn á undir þessum forsendum. Vonandi er þetta ekki slæmt hjá honum.

Það er aldrei auðvelt að koma inn í svona leiki. Þetta var ljótur leikur, aðstæður voru hræðilegar og við vorum ekki upp á okkar besta.

Þetta var örugglega leiðinlegur fótboltaleikur til að horfa á en við héldum hreinu, kláruðum þetta og það er það sem skiptir máli. Þetta var mikið fram og til baka og liðið sem skoraði fyrst var alltaf að fara að vinna,“ sagði hann.

Ísland leikur úrslitaleik við Wales um annað sæti riðilsins á þriðjudaginn kemur.

„Mér líst vel á það og það verður allt öðruvísi leikur. Þar er frábær leikvangur og verður alvöru stemning á móti góðu liði. Pressan er á þeim á þeirra heimavelli. Við mætum klárir,“ sagði Guðlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert