„Það var geggjað að fá að upplifa að spila á móti Chelsea á Stamford Bridge og í Evrópukeppni,“ sagði Andri Lucas Guðjohnsen landsliðsmaður Íslands í fótbolta í samtali við mbl.is.
Andri lék gegn enska liðinu með Gent frá Belgíu í Sambandsdeildinni. Faðir hans Eiður Smári Guðjohnsen lék með Chelsea frá 2000 til 2006 og er afar vinsæll hjá félaginu enn í dag. Eiður var leikmaður liðsins þegar Andri fæddist, árið 2002.
„Pabbi spilaði þar og það var geggjuð upplifun fyrir mig. Það eru enn þá einhverjir að vinna fyrir félagið síðan pabbi var í Chelsea og það voru einhverjir sem þekktu mig og það var gaman að hitta það fólk,“ sagði hann.
Eiður var að sjálfsögðu mættur til Lundúna að fylgjast með syninum og Sveinn Aron Guðjohnsen eldri bróðir Andra sömuleiðis.
„Ég vissi ekkert hvar þeir voru staddir í stúkunni. Mamma og litla systir mín voru þarna líka og það var geggjað að fá stuðning frá þeim. Þetta var í fyrsta skipti frekar lengi sem pabbi hélt ekki með Chelsea.
Hann hélt með mér. Það var geggjað fyrir hann að koma til London og koma aftur á Stamford Brige. Þetta var skemmtilegt fyrir mig og mína fjölskyldu,“ sagði Andri.