Treysti Andra fyrir lífi mínu

Orri fagnar marki sínu í gærkvöldi.
Orri fagnar marki sínu í gærkvöldi. Ljósmynd/Alex Nicodim

Orri Steinn Óskarsson átti afar góðan leik fyrir íslenska landsliðið í fótbolta er það sigraði það svartfellska, 2:0, á útivelli í Þjóðadeildinni í gærkvöldi. Staðan var markalaus fram að 74. mínútu þegar Orri skoraði fyrra markið.

„Það var meiri ró á leikmönnum á þeim kafla sem við skoruðum og okkur tókst að stýra boltanum betur. Við fórum yfir það í hálfleik að við vildum vera aðeins rólegri og vera grimmari í 50/50 bolta og það hjálpaði mikið.

Við vissum að þetta yrði erfitt og þeir eru með fínt lið. Völlurinn var ekki frábær, eins og allir sáu. Við börðumst vel og á endanum komu tvö mörk sem skildu að,“ sagði Orri um leikinn við mbl.is í gærkvöldi.

Orri skoraði markið með góðri afgreiðslu í teignum eftir að Mikael Egill Ellertsson skallaði boltann á hann.

„Ég sá að boltinn kom hátt og ég vissi að varnarmennirnir myndu sogast að boltanum. Þá beið ég aðeins í mínu svæði og sagði Mikael að skalla á mig, sem hann gerði frábærlega með kraftmiklum skalla. Ég á að skora úr svona færum og ég gerði það.“

Orri átti svo stóran þátt í seinna markinu en hann fékk boltann á hægri kantinum, tók á rás og sendi á Andra Lucas Guðjohnsen sem framlengdi boltann á Ísak Bergmann Jóhannesson sem skoraði með glæsilegu skoti.

„Ég var orðinn svolítið þreyttur og þá er mikilvægt að passa upp á boltann. Ég var með svæði og flugbraut til að gera eitthvað. Andri Lucas var svo með mér og ég treysti honum fyrir lífi mínu með boltann. Ég sendi á hann og Ísak kláraði þetta með frábæru löppinni sinni og sýndi mikil gæði,“ sagði Orri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert