Orri Steinn Óskarsson, landsliðsmaður í fótbolta, fékk gult spjald tveimur mínútum áður en hann skoraði gegn Svartfjallalandi á laugardag er hann ýtti Igor Vujatic eftir að sá svartfellski braut á honum.
Orri sýndi þar skapið sem hann hefur að geyma.
„Ég hef alltaf verið með mikið skap, sem ég fæ frá foreldrunum. Þetta var kannski ekki mitt besta augnablik þegar ég ýtti honum en ég hef lært það í gegnum tíðina að láta reiðina gefa mér jákvæða orku í staðinn fyrir að láta hana draga mig niður,“ útskýrði Orri.
„Ég ýtti honum aðeins í öxlina og þetta var ekki mikið. Hann var nýbúinn að fara í grófa tæklingu þar sem hann hugsaði aðeins að fara í mig.“