Ísland tapaði lokaleik sínum í undankeppni Evrópumóts U19 ára karla í knattspyrnu gegn Írlandi, 2:1, í Chisinau í Moldóvu í dag.
Íslenska liðið var búið að vinna tvo fyrstu sína, gegn Aserbaídsjan og Moldóvu og var því fyrir leikinn búið að tryggja sér sæti í milliriðli en Írar þurftu stig í dag til að gulltryggja sér annað sætið og áframhald í keppninni.
Írar unnu því riðilinn með 7 stig og Ísland fékk 6 stig í öðru sæti og bæði liðin verða í milliriðli keppninnar seinna í vetur þegar spilað verður um sæti í lokakeppninni.
Lið Íslands var mikið breytt frá fyrstu tveimur leikjunum og tveir byrjunarliðsmannanna voru í leikbanni í dag vegna gulra spjalda, þeir Kjartan Már Kjartansson og Galdur Guðmundsson, en Viktor Nói Viðarsson fór heim strax eftir fyrsta leikinn vegna meiðsla.
Írar komust yfir strax á 8. mínútu þegar Sölvi Stefánsson skoraði slysalegt sjálfsmark þegar hann ætlaði að hreinsa frá marki eftir fyrirgjöf Íranna en sendi boltann óverjandi í íslenska markið.
Staðan var 1:0 í hálfleik en Ísland fékk vítaspyrnu á 55. mínútu þegar Stígur Diljan Þórðarson var felldur og úr henni skoraði Daniel Ingi Jóhannesson af öryggi, 1:1.
Írar voru sterkari í síðari hálfleiknum og náðu forystunni á ný á 69. mínútu þegar Najemedine Raze skoraði, 2:1. Það reyndist vera sigurmarkið í leiknum.