„Það er rétt, þetta var góð byrjun,“ sagði Alfons Sampsted, bakvörður Íslands, eftir 4:1-tap fyrir Wales í Þjóðadeildinni í fótbolta í Cardiff í kvöld.
„Við vorum að mæta góðu fótboltaliði, pressuðum þá hátt og gáfum þeim engan tíma á boltann. Mér fannst við vera að þvinga fram mistök hjá þeim.
Síðan skorum við markið og þá er eins og við ætlum að byrja að verja eitthvað í staðinn fyrir að sækja. Þá snýst leikurinn svolítið.
Þeir ná meiri stjórn, láta okkur hlaupa og ná inn tveimur mörkum, þar af einu rétt fyrir hálfleik. Þá byrjar aðeins að brotna hjá okkur,“ sagði Alfons í samtali við mbl.is eftir leik.
Ísland byrjaði leikinn vel og komst yfir en síðan seig á ógæfuhliðina. Hann sagði eitthvað hafa verið um jákvæða punkta fyrir íslenska liðið í leiknum.
„Það má segja það. Við fengum nokkur færi. Ef við jöfnum leikinn þá er þetta galopið og allt til þess að spila um. Á endanum gerum við það ekki og þeir refsa okkur. Það er fótbolti.“
Alfons fékk erfitt verkefni í hægri bakverðinum þar sem hinn eldsnöggi Daniel James, kantmaður Leeds United, mætti honum á vinstri kantinum.
„Það er alltaf gaman að mæla sig á móti leikmönnum sem eru í háum gæðaflokki. Þessi vissi sína styrkleika.
Hann vissi hvað hann gat gert til þess að ógna og spilaði svolítið á þeim styrkleikum. Það var gaman að mæta honum en síðan fer leikurinn í leiðinda endi fyrir sjálfan mig,“ sagði hann.
Þrátt fyrir stórt tap var Alfons, sem spilar sjálfur með Birmingham City í C-deild Englands, hrifinn af aðstæðum á Cardiff City-leikvanginum.
„Þetta súmmerar svolítið upp enska fótboltastemningu, hvernig þetta er hérna í Bretlandi. Þeir mæta, þeir syngja, þeir styðja og þeir setja kröfur. Í raun og veru eru þeir með allan pakkann,“ sagði bakvörðurinn.
Honum líst vel á tilvonandi umspil í mars um að halda sætinu í B-deild.
„Mér finnst við fyllilega í stakk búnir til þess að fara inn í þetta umspil og vinna það. Við þurfum bara að fara með höfuðið hátt inn í það, fullir sjálfstrausts og sjá hvað verður með heimavöllinn okkar,“ sagði Alfons að lokum.