Íslenska landsliðið í fótbolta mátti þola tap, 4:1, gegn Wales á útivelli í Þjóðadeild karla í fótbolta á Cardiff City-vellinum í kvöld. Úrslitin þýða að Ísland endar í þriðja sæti riðilsins og fer í umspil um að halda sæti sínu í B-deildinni.
Þar eru Slóvakía, Kósovó, Búlgaría og Armenía mögulegir andstæðingar.
Ísland byrjaði gríðarlega vel og Ísak Bergmann Jóhannesson fékk fyrsta færi leiksins á 5. mínútu en Danny Ward í marki Wales varði vel frá honum úr teignum.
Tveimur mínútum síðar kom fyrsta markið og það gerði Andri Lucas Guðjohnsen. Jóhann Berg Guðmundsson sendi inn í teiginn á Orra Stein Óskarsson sem skallaði að marki, Ward varði en Andri var fyrstur í boltann og skoraði vinstra megin í teignum.
Markið gaf íslenska liðinu kraft og Orri Steinn var nálægt því að sleppa í dauðafæri á 13. mínútu en Joe Rodon í vörn Wales varðist vel.
Íslenska liðið varð fyrir áfalli á 25. mínútu þegar Orri Steinn þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Við það riðlaðist leikur íslenska liðsins og Liam Cullen jafnaði á 32. mínútu þegar hann skallaði í netið af stuttu færi á 32. mínútu eftir fyrirgjöf frá Brennan Johnson.
Fjórum mínútum síðar fékk Andri Lucas fínt færi til að skora annað mark Íslands og annað markið sitt en hann setti boltann fram hjá úr teignum eftir fyrirgjöf Jóhanns Bergs Guðmundssonar.
Wales átti hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleik því Cullen skoraði sitt annað mark úr síðustu sókn hálfleiksins. Hákon varði vel frá Daniel James úr dauðafæri en Cullen fylgdi á eftir og var staðan í leikhléi því 2:1.
Ísland var nálægt því að jafna á 51. mínútu er Mikael Egill Ellertsson átti fast skot sem Ward varði. Mínútu síðar átti Jón Dagur skot rétt fram hjá.
Harry Wilson slapp einn í gegn á 60. mínútu og gerði Hákon Rafnvel í að verja. Hinum megin komst Jón Dagur í enn eitt gott færið en skaut vel yfir.
Brennan Johnson refsaði hinum megin með þriðja marki Wales á 65. mínútu er hann slapp einn í gegn og skoraði af öryggi fram hjá Hákoni.
Vont varð síðan verra á 79. mínútu þegar Harry Wilson lagði boltann í bláhornið fjær rétt utan teigs og kom Wales í 4:1. Reyndist það síðasta mark leiksins og þriggja marka skellur í Cardiff varð raunin.