Óvíst er hvort Åge Hareide haldi áfram þjálfun íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu en forráðamenn Knattspyrnusambands Íslands geta sagt upp samningi Norðmannsins fyrir mánaðarmót.
Hareide, sem er 71 árs gamall, tók við þjálfun íslenska liðsins í apríl á síðasta ári undir hans stjórn hefur Ísland unnið átta leiki, tapað níu og gert tvö jafntefli. Hann er með 42% sigurhlutafall sem þjálfari landsliðsins.
Norðmaðurinn var spurður út í framtíð sína í viðtali við Stöð 2 Sport eftir 4:1-tap liðsins gegn Wales í lokaleik Íslands í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar í Cardiff í gær.
„Ég er með uppsegjanlegan samning til 30. nóvember,“ sagði Hareide í samtali við Stöð 2 Sport.
„Við þurfum að setjast niður og fara yfir málin en það verður ekki gert í kvöld. Ég hef sagt það áður að ég hef mjög gaman að því að vinna með þessum leikmönnum og við erum með frábært lið þegar allir eru heilir heilsu og leikfærir.
„Við vitum að við getum náð í góð úrslit þegar að við erum fullmannaðir en þetta er ekki í mínum höndum, þetta er spurning fyrir KSÍ,“ bætti Hareide við.