Valur hefur hafnað kauptilboði Víkings úr Reykjavík í Gylfa Þór Sigurðsson, landsliðsmann í knattspyrnu.
„Það er rétt sem kom fram, þeir hafa gert okkur tilboð. Við lítum reyndar meira á það sem grín.
Ef Víkingur heldur að þeir geti keypt Gylfa á lágu verði þá finnst okkur það ekki raunsætt,“ sagði Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, í samtali við Fótbolta.net.
Björn Steinar greindi frá því að tilboðið hafi borist fyrir nokkrum dögum síðan. Í frétt 433.is, sem sagði fyrst frá, kom fram að tilboðið væri rausnarlegt og að Víkingur undirbúi annað tilboð.
Gylfi Þór er samningsbundinn Val út næsta tímabil en reiknar Björn Steinar ekki með því að Víkingur leggi fram annað tilboð.
„Ég á ekki von á því að Víkingar mæti aftur, fyrir mér var þetta allavega afgreitt af okkar hálfu,“ sagði hann.