Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, náði í gær áfanga sem er sjaldgæfur meðal íslenskra knattspyrnukvenna.
Hún lék með liði sínu í Sádi-Arabíu, Al Qadsiah, þegar það gerði jafntefli, 1:1, við Al Hilal á útivelli og spilaði þar með sinn 300. deildaleik á ferlinum.
Sara er aðeins ellefta íslenska knattspyrnukonan frá upphafi sem nær þessum leikjafjölda og önnur sem gerir það á þessu ári en Fanndís Friðriksdóttir úr Val lék í sumar sinn 300. deildaleik.
Leikir Söru eru í deildakeppni sex landa, 63 með Haukum og Breiðabliki á Íslandi, 111 með Malmö/Rosengård í Svíþjóð, 69 með Wolfsburg í Þýskalandi, 17 með Lyon í Frakklandi, 34 með Juventus á Ítalíu og nú 6 með Al Qadsiah í Sádi-Arabíu.
Sif Atladóttir er methafinn en hún á að baki 375 deildaleiki heima og erlendis og Hólmfríður Magnúsdóttir er önnur með 348 leiki.