Norðmaðurinn Åge Hareide lét af störfum sem þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta í dag eftir rúmt eitt og hálft ár í starfi. Fram undan hjá Knattspyrnusambandi Íslands er leit að eftirmanni þess norska.
„Núna virðum við fyrir okkur þá möguleika sem eru í boði. Við þurfum að vanda valið og hugsa vel hvað hentar okkur og hópnum. Við stjórnin og yfirmaður knattspyrnusviðs veltum fyrir okkur hvað er best í framtíðinni. Vonandi finnum við rétta manninn,“ sagði Þorvaldur Örlygsson formaður KSÍ í samtali við mbl.is.
KSÍ hefur ráðið Íslendinga og útlendinga til skiptis í starfið. Næsti landsliðsþjálfari gæti verið íslenskur en Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexandersson hafa báðir verið orðaðir við starfið.
„Auðvitað skoðum við hvaða reyndu og góðu Íslendingar eru í boði og kíkjum á þann pakka. Svo verða væntanlega einstaklingar sem sækjast eftir starfinu. Landsliðsstarf er stórt og mikið og við erum mjög gott samband, þótt lítið sé,“ sagði Þorvaldur.
Næstu landsleikir eru vináttuleikir gegn Haítí og Púertó Ríkó í Bandaríkjunum í janúar. Síðan taka við umspilsleikir um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar.
„Við viljum ganga frá þessu sem fyrst en á sama tíma tökum við okkur þann tíma sem þarf. Það eru mikilvægir leikir í mars og svo tekur við undankeppni HM. Það eru alltaf einhver verkefni fram undan og við viljum ganga frá þessu eins hratt og möguleiki er á, en með vandvirkni í huga.“
Þorvaldur vonast til að sem flestir í starfsliði landsliðsins haldi áfram með nýjum landsliðsþjálfara.
„Ég vona ekki. Mér finnst þjálfarateymið hafa gert mjög vel og sömuleiðis annað starfsfólk. Sjúkraþjálfarar, læknar og allir. Stundum vill nýr maður hafa sína línu í því hins vegar en við viljum halda stöðugleika áfram.
Við erum með skemmtilega blöndu af ungum drengjum og svo þeim eldri. Við vonum að framtíðin sé björt og með réttum þjálfara er hún það,“ sagði Þorvaldur.