Åge á erfitt með gang

Åge Hareide
Åge Hareide

Åge Hareide, sem hætti sem þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta í gær, vildi halda áfram sem þjálfari liðsins en neyddist til að hætta heilsunnar vegna.

„Ég vildi halda áfram en ég hef verið í vandræðum með hnéð. Ég hef átt erfitt með gang undanfarna tvo mánuði og verkurinn var mikill í verkefnunum í október og nóvember. Þú þarft að ganga mikið í landsliðsverkefnum,“ sagði hann við Nettavisen í Noregi.

„Ég þarf á aðgerð að halda og þangað til get ég lítið gert. Ég mun núna einbeita mér að sjálfum mér. Ég lenti einnig í veseni með hitt hnéð og þá var ég í einn og hálfan mánuð á spítala þar sem ég fékk sýkingu,“ sagði Hareide.

Hann er hættur í þjálfun, enda orðinn 71 árs og ferillinn verið ansi langur.

„Það eru blendnar tilfinningar. Það er ákveðin sorg því ég naut þess mjög að stýra íslenska landsliðinu. Ég átti gott samstarf við teymið, starfsfólk og leikmenn. Ég er hins vegar orðinn rúmlega sjötugur og ekkert endist að eilífu,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert