Andri samdi við Stjörnuna

Andri Rúnar Bjarnason er kominn í Garðabæinn.
Andri Rúnar Bjarnason er kominn í Garðabæinn. Ljósmynd/Stjarnan

Knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er genginn til liðs við Stjörnuna frá Vestra og skrifaði undir tveggja ára samning í Garðabænum.

Andri Rúnar er 34 ára sóknarmaður sem var með samning við Vestra sem átti að renna út á næsta tímabili en honum var rift.

Sóknarmaðurinn hefur komið víða við og leikið með Vestra, Val, ÍBV, Grindavík, Víkingi úr Reykjavík og BÍ/Bolungarvík hér á landi og með Helsingborg, Esbjerg og Kaiserslautern sem atvinnumaður.

Alls á Andri Rúnar að baki 270 leiki í efstu fjórum deildunum á Íslandi þar sem hann hefur skorað 112 mörk. Hann var markahæsti leikmaður Vestra í Bestu deildinni í ár með átta mörk í átján leikjum og fimm mörk hans í lokaumferðunum vógu þungt í að halda liðinu í deildinni.

Auk þess lék Andri Rúnar á sínum tíma fimm A-landsleiki og skoraði í þeim eitt mark.

Andri er einn af fimm leikmönnum sem deildu markametinu í efstu deild til skamms tíma en hann skoraði 19 mörk fyrir Grindavík í deildinni árið 2017.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu verkefni og ákvörðunin um að ganga til liðs við Stjörnuna var mjög auðveld þar sem metnaðurinn er mikill og hópurinn sterkur.

Ég hlakka mikið til þess að spila á Samsungvelli fyrir framan Silfurskeiðina og stuðningsmenn liðsins!” sagði hann í tilkynningu frá knattspyrnudeild Stjörnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert