Landsliðskonan þaulreynda Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins West Ham, heldur því fram að hún eigi að vera í landsliðshópnum fyrir komandi verkefni gegn Kanada og Danmörku.
Dagný, sem eignaðist sinn annan son í febrúar á þessu ári, var fengin í viðtal hjá breska miðlinum The Athletic ásamt mörgum öðrum fótboltaforeldrum.
Hún sneri aftur á völlinn í lok ágúst og hefur verið að spila mikið með liði sínu West Ham. Þrátt fyrir það hefur hún ekki enn verið valin í landsliðið, en Dagný, sem er 33 ára gömul, á að baki 113 leiki fyrir Ísland. Þá segir hún Þorstein Halldórsson landsliðsþjálfara ekki hafa hringt í sig í sjö mánuði.
„Ég ætti að vera komin aftur í landsliðið. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef ekki verið kölluð inn síðan ég var 18 ára. Ég var í landsliðinu á þessum tíma eftir fyrstu meðgöngu mína og er langt á undan núna miðað við þá.
Landsliðsþjálfarinn hringdi ekki í mig í sjö mánuði. Það hafa heldur ekki verið nein samtöl við starfsfólkið hér hjá West Ham eða mig,“ sagði Dagný meðal annars en viðtalið í heild sinni má lesa hér.