Eitt mesta efni sem Ísland hefur átt

„Við bjuggum saman þarna úti og vorum í sitthvoru herberginu hjá slátraranum í eitt ár,“ sagði Skagamaðurinn og knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Arnór Smárason í Dagmálum.

Arnór, sem er 36 ára gamall, lagði skóna á hilluna á dögunum en hann á að baki farsælan atvinnumannaferil í Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Rússlandi og Noregi.

Sveif um völlinn

Skagamaðurinn Björn Jónsson gekk til liðs við Heerenveen árið 2005, þá 15 ára gamall, en hann þurfti að leggja skóna á hilluna þegar hann var 24 ára gamall vegna meiðsla.

„Hann var ótrúlegur,“ sagði Arnór.

„Hann sveif um völlinn og fyrsta snertingin hans var alltaf upp á tíu. Hvernig hann las leikinn, hann var betri en allir aðrir. Ég veit að Heerenveen hafði mikla trú á honum og hann var fljótlega kominn í æfingahópinn hjá aðalliðinu.

Fótboltinn var númer eitt, tvö og þrjú hjá honum en svo lendir hann í sínum meiðslum sem var pottþétt mjög erfitt fyrir hann. Það var leiðinlegt að sjá svona mikla hæfileika ekki ná alla leið því hann hefði svo sannarlega getað það,“ sagði Arnór.

Hvar væri hann núna ef hann væri enn þá að spila?

„Hann væri í toppbaráttunni í spænsku 1. deildinni. Ætli hann væri ekki bara að spila í tíunni hjá Real Madrid eða eitthvað, það voru engin takmörk fyrir hann á þessum tíma,“ sagði Arnór.

Viðtalið við Arnór í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Björn Jónsson gekk til liðs við Heerenveen árið 2005.
Björn Jónsson gekk til liðs við Heerenveen árið 2005. Ljósmynd/Heerenveen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert