Margir leikmenn Víkings úr Reykjavík hafa verið að glíma við meiðsli á leiktíðinni. Á meðal þeirra eru Aron Elís Þrándarson, Matthías Vilhjálmsson og Valdimar Þór Ingimundarson. Þeir hafa nýtt gott frí vel og jafnað sig á meiðslunum fyrir leik Víkings og Noah í Sambandsdeildinni í fótbolta á morgun.
„Við fengum smá pásu núna og í henni Aron, Matti og Valdimar náð að æfa meira og við fáum þá ferska til baka. Aron hefur spilað mikið á tímabilinu en hann hefur lítið verið alveg heill.
Við höfum verið að tjasla honum saman en núna hefur hann fengið mánuð á æfingasvæðinu. Hann er kominn í gott stand og það sama með Matta og Valdimar. Þetta er eins og að fá nýja leikmenn,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings við mbl.is.
Mánuður er síðan Víkingur lék úrslitaleik við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn en tímabil Fossvogsliðsins heldur áfram.
„Ég held það sé ekkert mál því úrslit síðustu tveggja leikja hafa verið mjög góð. Blikar töpuðu fyrstu tveimur leikjunum í fyrra og þá varð þetta erfitt. Líkamsklukkan er komin í frí en þegar það hangir gulrót fyrir framan þig er auðveldara að gíra sig upp í lengra tímabil.
Við erum ekki aðeins í þessu fyrir okkur heldur líka íslenskan fótbolta. Það er mikil pressa á okkur en á sama tíma er þetta mjög spennandi,“ sagði hann.
Leikur Noah og Víkings fer fram í Jerevan, höfuðborg Armeníu, á morgun, fimmtudag, klukkan 17.45 að íslenskum tíma.