Víkingur úr Reykjavík sótti dýrmætt stig til Armeníu en liðið gerði markalaust jafntefli við Noah í fjórðu umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla í höfuðborginni Jerevan í kvöld.
Víkingar eru nú í ellefta sæti Sambandsdeildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki og er sæti í umspilinu farið að vera mjög líklegt.
Noah, sem landsliðsmaðurinn Guðmundur Þórarinsson spilar með, er í 26. sæti með fjögur stig. Guðmundur var á varamannabekk Noah og kom ekki við sögu í leiknum.
Víkingur fær sænska liðið Djurgården í heimsókn á Kópavogsvöll í fimmtu og næstsíðustu umferð deildarkeppninnar þann 12. desember en sækir LASK heim til Austurríkis í lokaumferðinni 19. desember.
Liðin voru jöfn í fyrri hálfleik en Noah fékk nokkur hættuleg færi og Ingvar Jónsson stóð vaktina vel í markinu og varði tvisvar vel í fyrri hálfleiknum.
Besta færið fékk hins vegar Víkingur á 42. mínútu. Þá slapp Valdimar Þór Ingimundarson í gegn eftir frábæra sendingu frá Viktori Örlygi Andrasyni og vippaði boltanum í slána.
Það virtist vera brotið á Valdimari en markvörðurinn Aleksey Ploshchadnyi keyrði út úr teignum og í Valdimar en ekkert var dæmt þrátt fyrir skoðun myndbandsdómara.
Víkingar voru sterkir í upphafi seinni hálfleiks en um miðjan hálfleikinn fóru heimamenn frá Armeníu að fá betri færi. Þeir náðu þó ekki að skapa mikla hættu að marki Víkinga, Ingvar varði vel hættulegasta skot Armenanna, og enduðu leikar með markalausu jafntefli.
Sterk varnarframmistaða Víkinga skilaði stigi sem gæti reynst afar dýrmætt í baráttunni um umspilssæti.