„Kanada er virkilega gott lið,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, fyrir vináttulandsleik Íslands gegn Kanada í knattspyrnu í Murcia á Spáni í kvöld.
Ísland mætir Kanada í kvöld og síðan Danmörku á sama stað næstkomandi þriðjudag.
„Staðan á hópnum er góð, þær eru allar heilar og klárar í leikinn,“ sagði Þorsteinn Halldórsson í viðtali hjá KSÍ.
Þorsteinn býst við erfiðum leik í Murcia.
„Kanada er virkilega gott lið sem sýndi það á Ólympíuleikunum í sumar. Þetta verður hörkuleikur og við munum þurfa eiga góðan leik til að vinna þær. Að sjálfsögðu er það þó alltaf markmið okkar.“
Þá mun Þorsteinn gera margar breytingar á milli leikja, líkt og í síðasta landsleikjaglugga þegar Ísland mætti Bandaríkjunum tvívegis.
„Já, í grunninn verður þetta ósköp svipað eins og í Bandaríkjunum. Skipt á milli leikja og leggjum upp með það að enginn sé að fara spila tvisvar nítíu mínútur.“
„Það er virkilega gott fyrir okkur sem lið. Mjög mikilvægt að halda áfram að kljást við lið sem eru í hæsta klassa. Það hjálpar okkur að verða betri að spila alltaf erfiða leiki og leiki sem við verðum að hafa virkilega fyrir til að vinna. Þetta er fínn undirbúningur fyrir Þjóðadeildina,“ bætti Þorsteinn við þegar spurður um mikilvægi svona vináttulandsleikja.