Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, á von á mjög erfiðum leik gegn Dönum í dag en þjóðirnar mætast í vináttuleik í Murcia á Spáni klukkan 17.
Þetta er seinni leikur íslenska liðsins í ferðinni en það gerði jafntefli gegn öflugu liði Dana, 0:0, á sama stað á föstudaginn.
„Þetta verður hörkuleikur. Danir spila bara þennan eina leik í þessum glugga og hafa ekkert spilað fyrir þennan leik. Það er því engin þreyta hjá þeim, þær mæta örugglega gegn okkur með sitt sterkasta lið og spila af fullum krafti.
Við vitum að Danir eru gott fótboltalið og við þurfum á öllum okkar kröftum að halda og góðri frammistöðu,“ sagði Þorsteinn á samfélagsmiðlum KSÍ.
Ísland vann óvæntan sigur á Dönum síðast þegar liðin mættust, í Viborg í Danmörku fyrir ári síðan, 1:0, en sá leikur var í Þjóðadeildinni og sigur Íslands þýddi að Danir komust ekki í undanúrslitin og misstu af tækifæri til að vinna sér sæti á Ólympíuleikunum í París.