HK-ingurinn Atli Þór Jónasson gerði sér lítið fyrir í gærkvöld og skoraði fjögur mörk hjá Víkingi þegar liðin mættust í fyrsta leik á vetrarmóti nýs tímabils í Kórnum í Kópavogi.
Leikur liðanna endaði 4:4 og Víkingar, sem eru á fullri ferð í Sambandsdeildinni þar sem þeir eiga eftir tvo leiki í þessum mánuði, réðu ekki við framherjann hávaxna.
HK lék hins vegar sinn fyrsta leik á nýju undirbúningstímabili og tefldi fram mörgum leikmönnum sem eru til reynslu hjá Kópavogsliðinu en það féll úr Bestu deildinni í haust.
Daði Berg Jónsson, Nikolaj Hansen, Helgi Guðjónsson og Haraldur Ágúst Brynjarsson skoruðu mörk Víkings í leiknum.