Ísabella Sara Tryggvadóttir forðaði Íslandi frá falli úr A-deild Evrópumóts U19 ára landsliða kvenna í knattspyrnu í dag.
Ísabella jafnaði metin, 1:1, gegn Norður-Írlandi í lokaumferð undanriðils Evrópumótsins í Murcia á Spáni á 87. mínútu leiksins, eftir aukaspyrnu fyrirliðans Bergdísar Sveinsdóttur.
Aðeins þremur mínútum áður hafði Niamh Boothroyd komið norðurírska liðinu yfir, 1:0, en íslenska liðið þurfti jafntefli í leiknum til að halda þriðja sæti riðilsins og leika áfram í A-deildinni síðar í vetur þegar spilað verður um sæti í lokakeppninni.
Ósigur í leiknum hefði verið gegn gangi hans en íslenska liðið átti fimmtán markskot í leiknum gegn þremur skotum norðurírska liðsins.
Íslensku stúlkurnar höfðu áður gert jafntefli við Belgíu, 1:1, þar sem þær fengu á sig mark í uppbótartíma, og tapað 3:0 fyrir Spáni.
Spánn vann yfirburðasigur á Belgíu, 6:0, og fékk níu stig og markatöluna 15:0. Belgía fékk fjögur stig, Ísland tvö en Norður-Írland fékk eitt stig og fellur niður í B-deildina.