Knattspyrnumaðurinn Damir Muminovic, sem hefur leikið með Breiðabliki undanfarin tíu ár, er búinn að ganga frá samningi við DPMM frá Asíuríkinu Brúnei og leikur með því frá áramótum og fram á næsta sumar.
Damir staðfesti þetta við mbl.is en hann hefur verið í sambandi við félagið undanfarna mánuði. DPMM tilkynnti strax í ágúst að hann væri væntanlegur til félagsins í desember.
DPMM, eða Duli Pengiran Muda Mahkota, leikur í úrvalsdeildinni í nágrannaríkinu Singapúr í suðausturhluta Asíu og er þar í sjötta sæti af níu liðum þegar keppnin er hálfnuð. Liðið hefur spilað 18 leiki af 32 á tímabilinu, sem lýkur í lok maí.
Deildin hefur verið í vetrarfríi frá 2. nóvember en fer aftur af stað 13. janúar.
Damir er fyrsti Íslendingurinn sem leikur sem atvinnumaður í þessari deild. Hann kveður Blikana sem Íslandsmeistari, bæði í ár og 2022, og hefur verið lykilmaður í varnarleik þeirra um árabil. Þá hefur Damir, sem er 34 ára gamall, leikið sex A-landsleiki, alla á árunum 2022 og 2023.
Tveir aðrir Evrópubúar eru leikmenn DPMM, makedónski markvörðurinn Kristijan Naumovski og portúgalski kantmaðurinn Miguel Oliveira. Fyrir utan leikmenn frá Ástralíu og Brasilíu eru allir aðrir í leikmannahópnum frá Brúnei, sem er á eyjunni Borneó og liðið flýgur þaðan í alla útileiki í Singapúr.
Varalið DPMM leikur í efstu deildinni í Brúnei og hefur unnið alla leiki sína þar á yfirstandandi tímabili.