Damir samdi við asíska félagið

Damir Muminovic hefur verið einn sterkasti varnarmaður Bestu deildarinnar undanfarin …
Damir Muminovic hefur verið einn sterkasti varnarmaður Bestu deildarinnar undanfarin ár. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Knattspyrnumaðurinn Damir Muminovic, sem hefur leikið með Breiðabliki undanfarin tíu ár, er búinn að ganga frá samningi við DPMM frá Asíuríkinu Brúnei og leikur með því frá áramótum og fram á næsta sumar.

Damir staðfesti þetta við mbl.is en hann hefur verið í sambandi við félagið undanfarna mánuði. DPMM tilkynnti strax í ágúst að hann væri væntanlegur til félagsins í desember.

DPMM, eða Duli Pengiran Muda Mahkota, leikur í úrvalsdeildinni í nágrannaríkinu Singapúr í suðausturhluta Asíu og er þar í sjötta sæti af níu liðum þegar keppnin er hálfnuð. Liðið hefur spilað 18 leiki af 32 á tímabilinu, sem lýkur í lok maí.

Deildin hefur verið í vetrarfríi frá 2. nóvember en fer aftur af stað 13. janúar.

Damir er fyrsti Íslendingurinn sem leikur sem atvinnumaður í þessari deild. Hann kveður Blikana sem Íslandsmeistari, bæði í ár og 2022, og hefur verið lykilmaður í varnarleik þeirra um árabil. Þá hefur Damir, sem er 34 ára gamall, leikið sex A-landsleiki, alla á árunum 2022 og 2023.

Tveir aðrir Evrópubúar eru leikmenn DPMM, makedónski markvörðurinn Kristijan Naumovski og portúgalski kantmaðurinn Miguel Oliveira. Fyrir utan leikmenn frá Ástralíu og Brasilíu eru allir aðrir í leikmannahópnum frá Brúnei, sem er á eyjunni Borneó og liðið flýgur þaðan í alla útileiki í Singapúr.

Varalið DPMM leikur í efstu deildinni í Brúnei og hefur unnið alla leiki sína þar á yfirstandandi tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert