Portúgalska knattspyrnumanninum Rúben Dias var ekki skemmt þegar hann mætti í viðtal hjá Jan Åge Fjörtoft hjá Viaplay eftir tap liðsins gegn Liverpool í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield á sunnudaginn.
Leiknum lauk með nokkuð þægilegum sigri Liverpool, 2:0, og er Liverpool nú með 11 stiga forskot á City á toppi deildarinnar.
Þá var þetta sjötti ósigur City í síðustu sjö leikjum sínum og fjórða tap liðsins í röð í ensku úrvalsdeildinni.
„Við erum fyrst og fremst að hugsa um leikinn gegn Nottingham Forest og það er eina sem ég er að hugsa um,“ sagði Dias í samtali við Viaplay þegar hann var spurður út í taphrinu City.
Dias var því næst spurður að því hvernig leikmenn City takast á við úrslitin í síðustu leikjum og þá fauk í Portúgalann.
„Þú gerir þér grein fyrir því að þú ert að tala við leikmann í liði sem hefur verið eitt besta lið heims undanfarin ár og unnið allt sem hægt er að vinna. Þú ættir kannski að hugsa um það þegar þú spyrð mig að þessum spurningum,“ sagði Dias þá.
„Ég geri mér fulla grein fyrir því og þess vegna er ég að spyrja þig út í þetta því þið eruð vanir að vinna leiki, ekki tapa þeim,“ sagði Fjörtoft þá.
„Þetta er einfalt, það er bara næsti leikur,“ bætti Dias þá við en viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.