„Draumur sem ég hélt að myndi aldrei rætast“

Axel Óskar Andrésson.
Axel Óskar Andrésson. mbl.is/Eyþór Árnason

„Ég er með mjög góða tilfinningu fyrir þessu og ég hlakka mikið til sumarsins,“ sagði Axel Óskar Andrésson, nýr leikmaður Aftureldingar í Bestu deild karla í fótbolta, í samtali við mbl.is á blaðamannafundi félagsins í Hlégarði í Mosfellsbæ í dag.

Axel Óskar, sem er 26 ára gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við uppeldisfélagið sitt en hann lék með KR í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.

Fjölskyldusumar í Mosfellsbæ

„Þetta verður svo sannarlega fjölskyldusumar. Þetta er í raun draumur sem ég hélt að myndi aldrei rætast, allavega ekki á næstu árum. Svona er þetta hins vegar og það verður geggjað að fá að spila með bróður sínum. Það spilaði mjög stórt hlutverk í þeirri ákvörðun minni að koma hingað, að koma hingað saman í pakkadíl,“ sagði Axel Óskar.

Afturelding hafði betur gegn Keflavík, í úrslitum umspilsins í haust, og leikur því í efstu deild næsta sumar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

„Við ætlum okkur að mæta af krafti í Bestu deildina og ég hef mikla trú á okkur. Þetta verður ekki auðvelt, enda eru hin liðin að styrkja sig líka, en við erum ekki mættir í efstu deild bara til þess að spila með,“ sagði Axel Óskar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert