Fjórir leikmenn í raðir nýliðanna úr Mosfellsbæ

Þórður Gunnar Hafþórsson, Oliver Sigurjónsson, Jökull Andrésson og Axel Óskar …
Þórður Gunnar Hafþórsson, Oliver Sigurjónsson, Jökull Andrésson og Axel Óskar Andrésson eru allir komnir í Aftureldingu. mbl.is/Eyþór

Afturelding, sem leikur í fyrsta skipti í efstu deild karla í knattspyrnu á næsta tímabili, hefur fengið til sín fjóra leikmenn og kynnti þá til leiks hjá félaginu núna í hádeginu.

Markvörðurinn Jökull Andrésson lék reyndar með Aftureldingu seinni hluta síðasta tímabils, sem lánsmaður frá Reading á Englandi, og átti drjúgan þátt í að tryggja uppeldisfélaginu sæti í Bestu deildinni. Jökull, sem er 23 ára gamall, snýr nú alfarið heim í Mosfellsbæ eftir sjö ár í röðum Reading sem lánaði hann til fimm félaga í neðri deildum, Hungerford, Morecambe, Exeter, Stevenage og Carlisle.

Axel Óskar Andrésson, bróðir Jökuls, snýr einnig á heimaslóðir eftir langa fjarveru en hann fór 16 ára gamall frá Aftureldingu til Reading fyrir tíu árum. Hann hafði samt þegar leikið átta leiki með liðinu í 2. deild. Axel, sem er 26 ára miðvörður, lék með KR á þessu ári en fram að því á Englandi þar sem hann var lánaður frá Reading til Bath City og Torquay, með Viking í Noregi, Riga í Lettlandi og Örebro í Svíþjóð en með síðastnefnda liðinu lék hann í sænsku B-deildinni árin 2022 og 2023. Axel lék 21 leik með KR í Bestu deildinni í ár og skoraði tvö mörk.

Oliver Sigurjónsson, sem er 29 ára gamall miðjumaður, kemur til Aftureldingar frá Breiðabliki þar sem hann varð Íslandsmeistari í annað sinn á þessu ári. Oliver hefur leikið allan meistaraflokksferilinn hér á landi með Breiðabliki en hann lék um skeið með Bodö/Glimt í Noregi og var á aldrinum 16-19 ára í röðum AGF í Danmörku. Oliver hefur leikið 152 leiki fyrir Breiðablik í efstu deild og skorað fimm mörk.

Þórður Gunnar Hafþórsson, 23 ára kantmaður, kemur til Aftureldingar frá Fylki þar sem hann hefur leikið undanfarin fimm ár. Þórður er Ísfirðingur og lék frá 15 ára aldri með Vestra í 2. deildinni, samtals í fjögur ár, áður en hann kom í Árbæinn. Þórður hefur leikið 82 leiki með Fylki í efstu deild og skorað fimm mörk og skoraði fjögur mörk í 22 leikjum í 1. deildinni með Árbæjarliðinu árið 2022.

Axel samdi við Aftureldingu til þriggja ára en hinir þrír til tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert