Knattspyrnumaðurinn og Íslandsmeistarinn Damir Muminovic skrifaði á dögunum undir sex mánaða samning við DPMM frá Asíuríkinu Brúnei en liðið leikur í efstu deild Singapúrs og situr þar í sjötta sæti deildarinnar af níu liðum.
DPMM eða Duli Pengiran Muda Mahkotaer er í suðausturhluta Asíu en deildin hefur verið í vetrarfríi frá 2. nóvember og hefst á nýjan leik þann 13. janúar.
Damir, sem er 34 ára gamall, er fyrsti Íslendingurinn sem leikur sem atvinnumaður í deildinni en hann hefur leikið með Breiðabliki undanfarin tíu ár og hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með liðinu, árin 2022 og í ár.
Miðvörðurinn heldur út til Brúnei um helgina og eyðir jólunum því fjarri vinum og fjölskyldu sinni.
„Ég flýg út á laugardaginn klukkan hálf þrjú og til stendur að ég verði mættur til Brúnei á miðnætti daginn eftir þannig að við erum að tala um eins og hálfs sólahringa ferðalag. Félagið sá um að skaffa mér íbúð og þessir fyrstu dagar fara bara í það að koma sér fyrir og skoða sig um í nýju landi.
Fjölskyldan verður eftir heima en planið er að þau komi út til mín í febrúar eða um páskana. Ég verð því einn um jólin sem verður sérstakt og maður mun eflaust eyða ágætis tíma á Facetime með þeim. Ég er átta tímum á undan þeim þannig að ég þarf að finna góðan tíma til þess að heyra í þeim,“ sagði Damir í samtali við mbl.is.
Ítarlegt viðtal við Damir má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í fyrramálið.