Allir nema tveir klárir hjá Víkingum

Gunnar Vatnhamar skoraði gegn Cercel Brugge í keppninni en er …
Gunnar Vatnhamar skoraði gegn Cercel Brugge í keppninni en er nú frá vegna meiðsla. Eyþór Árnason

„Við höfum nýtt tímann til að æfa mjög vel,“ sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings á blaðamannafundi á Kópavogsvelli í dag fyrir leik Víkings gegn sænska liðinu Djurgården í Sambandsdeildinni á morgun.

Víkingur hefur ekki spilað keppnisleik frá 28. nóvember er liðið gerði markalaust jafntefli við Noah frá Armeníu á útivelli. Það hefur einhverja kosti í för með sér að langt sé á milli alvöruleikja.

„Þegar það var allt á fullu í sumar leið manni eins og við hefðum varla náð einni alvöru æfingu. Það var endalaust af leikjum, endurheimt og fundum. Ég skynja góða breytingu á hópnum eftir þennan góða tíma á æfingasvæðinu,“ sagði Arnar.

Allir leikmenn Víkings eru klárir í slaginn á morgun fyrir utan Færeyinginn Gunnar Vatnhamar og miðjumanninn Pablo Punyed en þeir eru að glíma við meiðsli. Matthías Vilhjálmsson og Valdimar Þór Ingimundarson eru klárir í slaginn en þeir voru tæpir fyrir leikinn við Noah.

„Staðan á hópnum er allt í lagi en Gunnar nær ekki leiknum og Pablo er frá. Matthías og Valdimar hafa fengið dýrmætan tíma til að jafna sig. Það er ekkert nýtt fyrir okkur að glíma við meiðsli því við höfum verið án 3-5 sterkra leikmanna nánast allt tímabilið. Hópurinn hefur stigið vel upp,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert