Stockport staðfestir kaupin á Benoný

Benoný Breki Andrésson fagnar marki fyrir KR.
Benoný Breki Andrésson fagnar marki fyrir KR. mbl.is/Hákon

Enska knattspyrnufélagið Stockport County hefur komist að samkomulagi við KR um kaup á framherjanum efnilega, Benoný Breka Andréssyni.

Stockport skýrði frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Benoný, sem varð markakóngur Bestu deildar karla 2024 og sló markamet deildarinnar með því að skora 21 mark fyrir KR, gengur formlega til liðs við félagið um áramótin þegar félagaskiptaglugginn á Englandi verður opnaður, og þarf auk þess að fá alþjóðleg félagaskipti og atvinnuleyfi á Bretlandseyjum.

Stockport er nýliði í ensku C-deildinni en er þar í toppbaráttu, er í fimmta sætinu, og stefnir á  sæti í B-deildinni. Þá leikur liðið í janúar gegn úrvalsdeildarfélaginu Crystal Palace í þriðju umferð bikarkeppninnar.

Benoný er 19 ára gamall og uppalinn í Breiðabliki. Hann fór þaðan til Bologna á Ítalíu en gekk síðan til liðs við KR fyrir  tímabilið 2023 og hefur skorað 30 mörk í 51 leik fyrir Vesturbæjarliðið í Bestu deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert