Víkingur úr Reykjavík mátti sætta sig við naumt tap fyrir sænska liðinu Djurgården, 2:1, í 5. umferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla á Kópavogsvelli í dag.
Víkingur er í 15. sæti deildarinnar með sjö stig og Djurgården fór með sigrinum upp í sjötta sæti þar sem liðið er með tíu stig.
Víkingur var sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Lengst af tókst hvorugu liðinu hins vegar að skapa sér opin færi.
Hættulegastur hjá Djurgården var Norðmaðurinn Tokmac Nguen sem gerði sig nokkrum sinnum líklegan. Hann átti fyrsta skot leiksins snemma leiks, vinstri fótar skot á lofti eftir hornspyrnu en það fór rétt framhjá samskeytunum.
Eftir rúmlega stundarfjórðungs leik datt boltinn fyrir Danijel Dejan Djuric eftir að Aron Elís Þrándarson hafði betur í skallabaráttu við Miro Tenho, Danijel reyndi hjólhestaspyrnu úr markteignum en hitti boltann ekki nægilega vel og skotið framhjá.
Undir lok fyrri hálfleiks reyndi Nguen skot úr D-boganum í góðu færi en skotið var slakt og rúllaði framhjá markinu.
Skömmu síðar fékk Erlingur Agnarsson besta færi fyrri hálfleiks. Gísli Gottskálk Þórðarson átti þá laglega sendingu á Erling sem var einn hægra megin í vítateignum, hann tók þrumuskot en það fór í hliðarnetið á nærstönginni.
Staðan í hálfleik var því markalaus.
Í síðari hálfleik mætti lið Djurgården dýrvitlaust til leiks og fékk hvert dauðafærið á fætur öðru. Fyrst losnaði um Besard Sabovic fyrir miðjum vítateignum eftir laglegt spil en skot hans úr kjörstöðu fór rétt framhjá markinu.
Mínútu síðar, á 50. mínútu, slapp Gustav Wikheim einn í gegn, tók skotið úr vítateignum en það fór í þverslána og yfir markið.
Ekki leið á löngu þar til þriðja dauðafærið leit dagsins ljós á 54. mínútu. Þá slapp Deniz Hümmet einn í gegn hægra megin í vítateignum, reyndi skot í nærhornið en það fór í utanverða stöngina.
Eftir klukkutíma leik var Hümmet við það að sleppa aftur í gegn en Ingvar Jónsson kom langt út markinu og hreinsaði til hliðar á Jón Guðna Fjóluson. Hann missti boltann strax frá sér, Nguen reyndi skot úr D-boganum en Oliver Ekroth komst fyrir það.
Tveimur mínútum síðar, á 62. mínútu, náði Djurgården hins vegar forystunni. Eftir laglegt spil fékk Nguen boltann við D-bogann, lagði hann til hliðar á Keita Kosugi sem kom á ferðinni, tók viðstöðulaust skot rétt utan vítateigs vinstra megin sem söng í samskeytunum nær.
Gestirnir tvöfölduðu svo forystuna skömmu síðar, á 65. mínútu. Hümmet slapp þá einn í gegn, var með Ekroth andspænis sér, Wikheim kom á harðaspretti við hliðina á þeim, Hümmet renndi boltanum til hægri á Wikheim og hann vippaði boltanum snyrtilega framhjá Ingvari úr vítateignum.
Strax eftir annað mark Djurgården gerði þjálfarinn Arnar Gunnlaugsson tvöfalda skiptingu þar sem Nikolaj Hansen og Ari Sigurpálsson komu inn á fyrir Danijel og Davíð Örn Atlason. Skiptingin hressti Víkinga við sem höfðu ekki séð til sólar í síðari hálfleiknum.
Á 72. mínútu minnkaði Ari muninn. Miro Tenho negldi þá Aron Elís niður, dómarinn beitti hagnaðarreglunni og Erlingur fékk boltann, lagði hann á Valdimar Þór Ingimundarson sem gerði glæsilega í að koma boltanum á Ara sem var einn á auðum sjó vinstra megin í vítateignum og lagði boltann viðstöðulaust í netið.
Tveimur mínútum síðar dró til tíðinda þegar Tenho þrumaði Hansen niður og fékk þar með sitt annað gula spjald á tveimur mínútum og þar með rautt.
Eftir rauða spjaldið tókst Djurgården að róa leikinn nokkuð niður og fékk raunar tvö frábær færi til þess að gera út um hann. Fimm mínútum fyrir leikslok tók Tobias Gulliksen lúmskt skot nýkominn inn í vítateiginn en það fór í stöngina og boltinn rúllaði svo aftur fyrir.
Tveimur mínútum síðar missti Viktor Örlygur Andrason boltann klaufalega í öftustu línu, Hümmet slapp einu sinni enn í gegn en Ingvar kom enn einu sinni langt út úr mark sínu, varði skotið og náði boltanum í kjölfarið.
Á fimmtu mínútu uppbótartíma átti Hansen skalla eftir aukaspyrnu varamannsins Helga Guðjónssonar frá hægri en hann fór yfir markið. Stuttu síðar var svo flautað til leiksloka.