Verðlaunaféð á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Sviss næsta sumar verður 156 prósentum hærra en það var á síðasta móti sem fram fór á Englandi sumarið 2022.
Knattspyrnusamband Evrópu tilkynnti þetta í dag en verðlaunaféð á EM 2022 var 16 milljónir evra (rúmir 2,3 milljarðar króna) og verður 41 milljón evra (tæpar 5,7 milljarðar króna) á EM 2025 í Sviss.
Þá munu leikmenn í fyrsta skipti fá á bilinu 30-40 prósent af verðlaunafénu.
Öll sextán landsliðin sem leika til úrslita á EM, þar á meðal Ísland, fá 1,8 milljón evrur (um 263 milljónir króna) í sinn hlut en sú greiðsla nam 600 þúsund evrum (87,5 milljónum króna) á síðasta móti.
Hver sigur í riðlakeppninni færir viðkomandi þjóð 100 þúsund evrur (14,6 milljónir króna), og jafntefli gefur 50 þúsund evrur (7,3 milljónir króna).
Lið sem vinnur alla sína leiki og stendur uppi sem Evrópumeistari getur þar með fengið 5,1 milljón evrur (744 milljónir króna) í sinn hlut.
Heildargreiðsla frá UEFA til félagsliðanna sem eiga leikmenn í keppninni verður sex milljón evrur (875 milljónir króna).
„Þessi hækkun á greiðslum endurspeglar þá stefnu UEFA að stórefla knattspyrnu kvenna um alla Evrópu, en settur verður einn milljarður evra í það verkefni fyrir árin 2024 til 2030," segir í tilkynningu UEFA.