Ísland er í draumariðli Svía

Ísland tryggði sér sætið á EM með óvæntum stórsigri gegn …
Ísland tryggði sér sætið á EM með óvæntum stórsigri gegn Þýskalandi í sumar, 3:0. mbl.is/Arnþór Birkisson

Svíar vonast eftir því að dragast í riðil með Íslandi á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu sem fer fram í Sviss næsta sumar en dregið verður í riðlana klukkan 17 í dag.

Þetta er í það minnsta skoðun Lovinu Stafhammar, sérfræðings sænska vefmiðilsins FotbollDirekt sem spáir í spilin fyrir dráttinn í dag og velur „martraðarriðil“ og „draumariðil“ frir sænska landsliðið.

Svíar eru í þriðja styrkleikaflokki af fjórum, þar sem liðið endaði í þriðja sæti í sínum riðli undankeppninnar og þurfti að fara í umspil til að komast á EM og halda sæti sínu í A-deild Þjóðadeildarinar. 

Ísland er hins vegar í öðrum styrkleikaflokki eftir að hafa endað í öðru sæti í sínum riðli, á eftir  Þýskalandi en á undan Austurríki og Póllandi.

Martraðarriðill Lovinu er þannig skipaður:

Spánn
England
Svíþjóð
Portúgal

Hún segir að þarna myndu Svíar lenda í riðli með tveimur af bestu liðum heims, Spánverjum og Englendingum, ásamt því að Portúgal sé mjög erfiður andstæðingur með svipaðan leikstíl og Spánverjar.

Í draumariðli Lovinu eru þessar þjóðir:

Sviss
Ísland
Svíþjóð
Wales eða Finnland

„Þarna eigum við möguleika á draumariðli. Það er einfalt fyrir okkur að mæta þessum þjóðum og það er gríðarlega mikill munur á gæðum liðanna í martraðarriðlinum og draumariðlinum. Þennan riðil á Svíþjóð að vinna vandræðalítið," segir sérfræðingurinn Lovina Stafhammar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert