Íslensku félögin geta fengið greiðslur vegna EM

Viðbúið er að nokkrir leikmenn Íslands á EM gætu komið …
Viðbúið er að nokkrir leikmenn Íslands á EM gætu komið frá Val og Breiðabliki. mbl.is/Hákon Pálsson

Íslensku félögin sem eiga leikmenn í landsliðinu á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu í Sviss næsta sumar fá greiðslur í sinn hlut frá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu.

UEFA tilkynnti í dag um umtalsverða hækkun á greiðslum og verðlaunafé til þátttökuþjóðanna á EM 2025, alls um 156 prósent hækkun frá síðasta Evrópumóti.

Félag sem á leikmann í landsliði sem spilar leikina þrjá í riðlakeppninni en hefur síðan lokið keppni fær rúmlega 13 þúsund evrur í sinn hlut fyrir viðkomandi leikmann, eða tæplega tvær milljónir króna.

Upphæðin hækkar síðan um 657 evrur, tæplega 100 þúsund krónur, fyrir hvern þann dag sem landslið viðkomandi leikmanns er með í keppninni.

Reikna má með að nokkrir leikmenn úr Bestu deildinni verði í leikmannahópi Íslands á EM. Í síðasta landsliðshópi voru fimm leikmenn þaðan, tveir úr Val, tveir úr Breiðabliki og einn úr Þór/KA. 

Ef það hefði verið EM-hópurinn 2025 og Ísland leikið þrjá leiki í keppninni fengju þá Valur og Breiðablik tæplega fjórar milljónir hvort félag í sinn hlut og Þór/KA tæpar tvær milljónir króna.

Komist Ísland í átta liða úrslit bætast einir fimm dagar við, eða tæplega 500 þúsund krónur fyrir hvern leikmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert