Markvörður KR til reynslu í Hollandi

Guy Smit kastar boltanum frá markinu í leik gegn Stjörnunni.
Guy Smit kastar boltanum frá markinu í leik gegn Stjörnunni. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Hollenski knattspyrnumarkvörðurinn Guy Smit, sem varði mark KR-inga á síðasta keppnistímabili, er til reynslu hjá Roda í heimalandi sínu.

Roda skýrir frá þessu á samfélagsmiðlum sínum en félagið hefur lengi leikið í efstu deild og er sem standur í níunda sæti af átján liðum í B-deildinni í Hollandi.

Smit, sem er 28 ára gamall, var í röðum Nijmegen og FC Eindhoven í Hollandi áður en hann kom til Íslands árið 2020 en hann á að baki 102 deildaleiki hér á landi með Leikni R., Val, ÍBV og KR, þar af 80 leiki í efstu deild. Hann lék 26 af 27 leikjum KR í Bestu deildinni í ár.

Samningur Hollendingsins við KR er runninn út en Vesturbæjarfélagið hefur fengið til sín markvörðinn Halldór Snæ Georgsson frá Fjölni, sem hefur varið mark U19 ára landsliðsins og er nú í nýju U21 árs landsliði fyrir næsta tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert