Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, býst við erfiðum riðli á Evrópumótinu í Sviss næsta sumar.
Dregið var í riðla fyrir mótið í dag en Ísland verður með heimakonum í Sviss, Noregi og Finnlandi í riðli.
Þrátt fyrir að liðin þrjú eru sterk þá slapp Ísland við að vera með allra sterkustu liðunum í riðli og má segja að drátturinn hafi verið nokkuð heppilegur.
„Þetta eru sterk lið. Öll liðin í þessari keppni eru góð og það var vitað fyrir fram að við myndum fá hörkuandstæðinga.
Spaugilega hliðin á þessu er að við erum bæði með Noregi og Sviss í riðli í Þjóðadeildinni sem hefst í febrúar. Því komum við til með að spila tvisvar við þær þjóðir áður en við mætum þeim síðan í lokakeppninni, sem er öðruvísi en maður bjóst við,“ sagði Þorsteinn í samtali við KSÍ eftir dráttinn.
Þorsteinn var ekki alveg viss hvort að það sé jákvætt eða neikvætt að mæta Sviss og Noregi tvisvar fyrir mótið.
Ég er ekki alveg viss en þetta skiptir ekki höfuðmáli. Þetta er annað fyrirkomulag í lokakeppninni, bara einn leikur við hverja þjóð.
Það er ekki verið að spila á heimavelli né útivelli þannig þetta er ekki stórmál,“
Hvert er markmiðið fyrir mótið?
„Við stefnum að vera í öðru af tveimur efstu sætunum. Það er grunnmarkmiðið sem við ætlum okkur að ná.“