„Ég tók reyndar ákvörðun um að fara í annað lið á þessum tíma,“ sagði Skagamaðurinn og knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Arnór Smárason í Dagmálum.
Arnór, sem er 36 ára gamall, lagði skóna á hilluna á dögunum en hann á að baki farsælan atvinnumannaferil í Hollandi, Danmörku, Svíþjóð, Rússlandi og Noregi.
Arnór yfirgaf Esbjerg í Danmörku árið 2013 og gekk að endingu til Helsingborgar í Svíþjóð.
„Ég ætlaði að fara til Norsjælland og Kasper Hjulmand var að þjálfa þá á þessum tíma,“ sagði Arnór.
„Þeir voru ríkjandi Danmerkurmeistarar á þessum tíma og mér fannst mjög spennandi að vinna undir honum. Ég fór í þriggja daga læknisskoðun hjá þeim og það segir sig hálfpartinn sjálft að ef þú ferð í þriggja daga læknisskoðun þá munu þeir finna eitthvað á endanum.
Ég féll á læknisskoðuninni og endaði hjá Helsingborg sem var á toppnum í sænsku úrvalsdeildinni en ég skil ekki þessa læknisskoðun því ég missti varla af leik næstu fimm til sex árin,“ sagði Arnór meðal annars.
Viðtalið við Arnór í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.