Knattspyrnufélagið Valur hefur ráðið Fjalar Þorgeirsson sem nýjan markvarðaþjálfara félagsins. Fjalar mun bera ábyrgð á þjálfun markmanna meistaraflokks kvenna og í elstu yngri flokkum félagsins.
Fjalar er reynslumikill markmaður með yfir 200 leiki í efstu deild á Íslandi og hefur leikið fyrir lið eins og Þrótt, Fram, Fylki, KR auk Vals. Hann á að baki fimm landsleiki fyrir Íslands hönd.
Eftir að leikmannaferli hans lauk hefur Fjalar starfað sem markvarðaþjálfari hjá Stjörnunni og FH, auk þess sem hann hefur þjálfað hjá Knattspyrnusambandi Íslands frá árinu 2018. Síðan árið 2023 hefur hann gegnt starfi markvarðaþjálfara A-landsliðs karla. Fjalar er með meistaragráðu í íþróttavísindum og þjálfun frá Háskólanum í Reykjavík.
„Eftir að sú hugmynd kom upp að ég kæmi inn í þjálfun hjá Val leyst mér strax vel á. Bæði vegna þess að Hlíðarendi er annað heimili okkar fjölskyldunnar og ég veit að það er gríðarlegur efniviður í félaginu.
Þarna eru markmenn sem geta náð mjög langt og það er okkar að búa til umhverfi sem styður við þessa krakka. Við Kjartan Sturlu (markvarðasþjálfara meistaraflokks karla) tölum mikið saman og ég mun vinna þétt með honum og öðrum þjálfurum í félaginu. Það eru mjög spennandi tímar framundan,“ sagði Fjalar í tilkynningu frá Val.